Bangsaland

Deildarstjóri: Rakel Óláfsdóttir
Fjöldi nemenda er 24 og fjöldi starfsmanna er 5.

Á Bangsalandi eru 8 börn fædd árið 2013 og 16 börn fædd árið 2014. Það eru 7 strákar og 17 stelpur.

Við störfum eftir hugmyndafræði Reggio Emilia og leggjum áherslu á skráningar í vetur.

Markmið Bangsalands veturinn 2016-2017

  • Að efla börnin í frjálsum leik
  • Að styrkja félagslegan þroska barnanna
  • Að efla áhuga barnanna fyrir umhverfinu
  • Að efla sjálfsstæði barnanna

 Leiðir að markmiðum fyrir þennan veturinn:

Að kennarar bjóði upp á tíma, svigrúm og svæði fyrir frjálsan leik barnanna. Þannig er unnt að styrkja frjálsa leikinn og ýta undir hann. Einnig styrkjum við félagslegan þroska barnanna með því að halda utan um og styrkja frjálsa leikinn. Að kennarar séu viðstaddir og virkir í leik barnanna. Leikur barna með kennara viðstaddan er allt annar en leikur þar sem kennari er fjarri góðu gamni. Munum vera meðvituð um að vera dugleg að koma með áhugaverða hluti/efnivið í heimsókn á deildina og vekja þannig forvitni barnanna fyrir umhverfinu. Að kennarar styðji við og hjálpi börnunum án þess þó að gera allt fyrir þau. Gefa börnunum tækifæri á að renna upp úlpunni sjálf og reyna að gera sjálf á klósettinu svo dæmi sé tekið. Ekki alltaf taka fram fyrir hendurnar á þeim því æfingin kemur jafnt og þétt í litlu verkunum. Að auka gildi jákvæðra samskipta á deildinni með því að nota JÁ í 99% tilvika. Það verður notað sem agatæki og hægt er að segja JÁ en í raun meina NEI. Ef barnið spyr hvort það megi fá meiri mjólk þegar það hefur drukkið tvö mjólkurglös en ekki snert við brauðinu segjum við JÁ þegar þú ert búin með brauðið þitt. Þannig er hægt að vera ákveðin og í raun neita án þess að barnið upplifi neikvæðni og að það sé slegið á fingur þess. Einnig má passa sig á því að festast ekki í þeim vana að banna allt og að ekkert megi, börnin læra á því að prófa sig áfram og reyna sig sjálf í nýjum aðstæðum. Til að kenna þeim litina verða notuð sönglög, tákn, myndir, litaspil, litadagar og almenn umræða um liti, segja liti hluta. Það sama gildir varðandi það að kenna þeim að telja upp að tíu og að þekkja nöfn helstu líkamshluta. Við munum eins og endranær leggja áherslu á hvatningu og hrós, jákvæðar umræður og jákvæð fyrirmæli.

Við eflum:

  • Vitsmunaþroska og málþroska með því að tala við þau og hvetja þau til samræðna, spyrja opinna spurninga og forvitnast um t.d. fjölskyldu þeirra (allir vilja tala um fjölskyldur sínar). Við syngjum með þeim, lesum fyrir þau, segjum sögur og hlustum á tónlist og sögur. Við virðum hjá þeim frjálsa leikinn og leyfum þeim að haga honum eins og þeim hentar innan skynsemismarka þó. Ekki allur efniviður er bundinn sérstökum stofum heldur fá þau tækifæri til að þróa sinn leik og stjórna eftir sínu höfði.
  • Félagsþroska í frjálsa leiknum þar sem samskipti milli barnanna og kennara og barna eru mikil og mikilvægt að við höldum vel utan um þau og styðjum þau í þeim samskiptum. Styðjum við einstaklinga sem eru veikir á svelli á því sviði en temprum einnig hina sem eru mjög sterkir. Samverustundir, samvera við matarborð og útivera henta einnig mjög vel til að efla félagsþroskann sem og hver önnur stund dagsins.
  • Sköpunarþroska með því að bjóða upp á fjölbreyttan efnivið og góðan tíma til sköpunar í hvaða formi sem hún er hvort sem er í listasmiðju eða inn á deild.
  • Hreyfiþroska með því að fara í skipulagðan leikfimistíma í sal einu sinn í viku þar sem farið er í gegnum fjölbreyttar æfingar og leiki. Ýmis verkfæri eru notuð með svo sem boltar, sippubönd, leikfimistæki, húlahringir, grjónapokar og margt fleira. í fatakelafanum æfast  þau í að klæða sig sjáfl í og úr fötunum með jákvæðri hvatningu og hrósi kennara. þar sem ýtt er undir að þau reyni sjálf þegar kemur að því að klæða sig í og úr útifötunum.
  • Tilfinningaþroska með miklu hrósi og hvatningu sem leið til að efla sjálfsmynd barnanna. Með jákvæðum samskiptum og gleði og ánægju hjá börnum og kennurum deildarinnar.

Leikskólinn Austurborg | Háaleitisbraut 70 | 105 Reykjavík | s: 553 8545 | This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
loginInnskráning | Sendu okkur póst